Körfubolti

Dapur leiktíð hjá Milwaukee

Villanueva og Bogut eru úr leik í vetur
Villanueva og Bogut eru úr leik í vetur NordicPhotos/GettyImages

Lið Milwaukee Bucks hefur valdið miklum vonbrigðum í NBA deildinni í vetur. Meiðsli hafa þar sett stórt strik í reikninginn og í gær varð ljóst að tveir af lykilmönnum liðsins munu ekki spila meira með liðinu það sem eftir er leiktíðar.

Miðherjinn Andrew Bogut missti úr fyrsta leik sinn á ferlinum með liðinu í vikunni vegna tognunar í fæti og ákveðið hefur verið að hvíla hann það sem eftir er tímabils. Bogut var tekinn númer eitt í nýliðavalinu árið 2005 og er með 12,3 stig og hirðir 8,8 fráköst að meðaltali í leik.

Þá þarf framherjinn Charlie Villanueva að fara í uppskurð á öxl og verður ekki meira með liðinu á leiktíðinni. Hann hefur reyndar aðeins spilað 39 leiki í vetur vegna meiðsla og skoraði í þeim 12 stig og hirti 6 fráköst.

Aðalstjarna liðsins Michael Redd hefur líka misst mikið úr vegna meiðsla í vetur og næst launahæsti leikmaður liðsins, Bobby Simmons, hefur ekki spilað einn einasta leik. Tímabilið hefur því verið hálfgerð sorgarsaga hjá Bucks og menn þar á bæ væntanlega farnir að horfa til næsta hausts nú þegar. Liðið á 15 leiki eftir af deildarkeppninni og þegar er ljóst að liðið kemst ekki í úrslitakeppnina.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×