Erlent

Sögulegt samkomulag í höfn

Sögulegt samkomulag tókst í dag um myndun heimastjórnar á Norður-Írlandi. Leiðtogar Sambandsflokksins og Sinn Fein sömdu um þetta á fundi í morgun en þar til þá höfðu þeir aldrei hist augliti til auglits.

Nýja stjórnin tekur til starfa 8. maí næstkomandi. Samkomulagið er sögulegt en þar til í dag höfuð Ian Paisley, leiðtogi Lýðræðislega sambandsflokksins, og Gerry Adams, formaður Sinn Fein, stjórnmálaarms Írska lýðveldishersins, IRA, aldrei fundað. Paisley hafði ekkert viljað ræða beint við leiðtoga Sinn Fein.

Peter Hain, Norður-Írlandsmálaráðherra bresku ríkisstjórnarinnar, hafði gefið frest til dagsins í dag að mynda stjórn ellegar yrðu völd aftur færð til Lundúna þar sem þau hafa verið síðustu fjögur árin eða frá því heimastjórnarþingið var leyst upp vegna ásakana um að IRA hefði njósnað um andstæðinga sína á þingi.

Gerry Adams segir samkomulagið marka upphafið að tímabili í stjórnmálum á Norður-Írlandi. Ian Paisley segir að á næstu dögum taki framkvæmdastjórnir allra flokka þátt í að móta stjórn. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, segir þetta mikilvægan dag fyrir íbúar Norður-Írlands. Allt sem hafi verið gert síðasta áratuginn hafi verið undirbúningur fyrir þetta samkomulag.

Það þótti til marks um að enn er grunnt á því góða á milli leiðtoganna að þeir tókust ekki í hendur að blaðamannafundinum loknum. Hreyfingar þeirra hafa jú borist á banaspjótum áratugum saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×