Erlent

Bretar segjast geta sýnt fram á sakleysi sjóliða

Íranskir strandgæslumenn við eftirlit.
Íranskir strandgæslumenn við eftirlit. MYND/AFP
Bretar sögðu í dag að þeir muni sanna að bresku sjóliðarnir, sem Íranar handtóku á föstudaginn, hafi verið á írösku hafsvæði þegar handtökurnar átti sér stað. Sannanirnar segjast þeir ætla að sýna ef sjóliðunum verður ekki sleppt fljótlega. Íranar hafa haldið því fram að hermennirnir hafi verið á írönsku hafsvæði og að þess vegna hafi þeir verið handteknir.

Javier Solana, utanríkismálaráðherra Evrópusambandsins, mun halda viðræður við Ali Larijani, yfirmann öryggismála í Íran, um kjarnorkuáætlun landsins. Sumir hafa sagt að fresta ætti viðræðum þangað til hermönnunum hefur verið skilað heilum á húfi en Solana segir að þær muni fara fram.

Sendiherra Breta í Íran hefur í tvígang reynt að fá upplýsingar um hvar hermönnunum er haldið en í bæði skiptin hefur honum verið snúið frá án árangurs. Margaret Beckett, utanríkisráðherra Bretlands, hefur líka krafist þess að sendiherrann fái að heimsækja hermennina en þeirri bón hafa Íranar einnig neitað. Þeir segjast enn vera að yfirheyra þá og að á meðan rannsókn standi yfir muni enginn fá að heimsækja hermennina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×