Erlent

Geimhöfn reist í Nýju Mexíkó

Kjósendur í ríkinu Nýja Mexíkó í Bandaríkjunum munu brátt greiða atkvæði um hvort það eigi að reisa geimhöfn í ríkinu. Hún myndi gagnast einkafyrirtækjum sem ætla sér að fljúga farþegaflug út í geim. Ef kjósendur samþykkja nýjan skatt, sem fjármagna á byggingu geimhafnarinnar, verður hafist handa við byggingu hennar strax á þessu ári.

Fyrirtæki Richard Branson, Virgin Galactic, verður aðalviðskiptavinur geimhafnarinnar en það ætlar sér að hefja farþegaflug út í geim á næstu árum.

Gagnrýnendur óttast þó umhverfisáhrifin af svo gríðarstóru verkefni. Áætlað er að byggja geimhöfnina á 18.000 hekturum af eyðimerkurlandi. Gagnrýnendurnir óttast að náttúruleg fegurð svæðisins muni líða fyrir vikið og að of mikill hávaði muni koma frá geimhöfninni.

Vinna er þegar hafin við að skipuleggja geimhafnir á fjórum öðrum stöðum á hnettinum, í Kaliforníu og Oklahoma í Bandaríkjunum, Singapore og  í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×