Erlent

Hicks játaði

Ástralinn David Hicks, sem setið hefur í fangabúðunum í Guantanamo undanfarin fimm ár, hefur viðurkennt fyrir herdómstól að hafa tekið þátt í hryðjuverkastarfsemi. Hicks er fyrsti Guantanamo-fanginn sem réttað er yfir samkvæmt lögum sem mannréttindasamtök hafa gagnrýnt ákaft.

Hicks, sem er þrjátíu og eins árs og snerist til íslamstrúar fyrir nokkrum árum, var handtekinn í Afganistan í ársbyrjun 2002. Síðan þá hefur hann setið í hinum illræmdu fangabúðum í Guantanamo á Kúbu. Hicks er ákærður fyrir að hafa sótt þjálfunarbúðir al-Kaída í Afganistan og barist með talibönum en ákærur um morð hafa hins vegar verið felldar niður. Í gærkvöld, á fyrsta degi réttarhaldanna, játaði hann svo óvænt að hafa aðstoðað hryðjuverkamenn við iðju sína. Búist er við að dómur yfir Hicks verði kveðinn upp innan fárra daga. Lífstíðarfangelsisdómur er líklegasta niðurstaðan en þó er ekki loku fyrir það skotið að vegna þrýstings frá áströlskum yfirvöldum verði dómurinn eitthvað vægari. Samkvæmt samningi ríkisstjórna Bandaríkjanna og Ástralíu verður Hicks fluttur til heimalands síns þar sem hann afplánar svo dóminn.

Hicks er fyrsti fanginn sem er ákærður eftir lögum sem Bandaríkjastjórn setti síðastliðið haust til að bregðast við dómi hæstaréttar landsins um að meðferð Guantamo-fanganna bryti í bága við stjórnarskránna. Mannréttindasamtök segja hins vegar að nýju lögin veiti föngunum síst meiri vernd og herréttarhöld byggð á þeim séu einungis til málamynda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×