Erlent

Blair tilbúinn að beita nýjum aðferðum

MYND/AFP
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, varaði við því í dag að ef að bresku sjóliðarnir, sem Íranar tóku fasta á föstudaginn, yrðu ekki látnir lausir bráðlega væri hann tilbúinn að beita öðrum aðferðum en viðræðum. Bretar sögðu í gær að þeir myndu brátt sýna sönnunargögn sem tækju af allan vafa um hvar sjóliðarnir hefðu verið staddir.

Íranar fullyrða að vel sé farið með sjóliðana 15 en neita jafnframt að segja hvar þeir eru niðurkomnir. Íranar hafa einnig neitað að útiloka þann möguleika að mennirnir 15 verði sóttir til saka fyrir að hafa verið í óleyfi á írönsku hafsvæði.

Talsmaður Blairs sagði að Blair myndi ekki reka íranska diplómata frá Bretlandi eða beita hernaðaraðgerðum heldur myndu þeir einfaldlega sýna sönnunargögnin og krefjast lausnar sjóliðanna. Hins vegar gæti það haft slæm áhrif á sambúð Írans og Íraks og deilur á milli þeirra gætu magnast ef sannað þykir að Íranar hafi verið á írösku hafsvæði.

Sumir óttast að örlög sjóliðanna 15 eigi eftir að velta á kjarnorkudeilu vesturveldanna og Írana sem og ásökunum Bandaríkjamanna um að Íranar sjái uppreisnarmönnum í Írak fyrir vopnum.

Bandaríkjamenn settu í dag á fót sína stærstu heræfingu í Persaflóanum síðan ráðist var inn í Írak árið 2003. Herflugvélar tóku sig á loft af flugmóðurskipum sem þar eru og líktu eftir sprengjuárásum rétt fyrir utan strönd Írans. Bandaríski herinn fullyrðir þó að þessi sýning á hernaðarlegri getu þeirra tengist ekkert handtöku sjóliðanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×