Erlent

Leiðtogar Arabaríkja leggja til friðaráætlun

Konungur Sádi-Arabíu, Abdullah (t.h.), sést hér ræða við forseta Palestínu, Mahmoud Abbas (f.m.), ásamt forsætisráðherra Palestínu, Ismail Haniya (t.v.), á flugvellinum í  Riyadh í dag, degi áður en leiðtogafundurinn á að hefjast.
Konungur Sádi-Arabíu, Abdullah (t.h.), sést hér ræða við forseta Palestínu, Mahmoud Abbas (f.m.), ásamt forsætisráðherra Palestínu, Ismail Haniya (t.v.), á flugvellinum í Riyadh í dag, degi áður en leiðtogafundurinn á að hefjast. MYND/AFP

Leiðtogar Arabaríkja munu endurvekja fimm ára gamla friðaráætlun á leiðtogafundi sem haldinn verður í Sádi-Arabíu á morgun. Ætla þeir að hvetja Ísraela til þess að samþykkja áætlunina. Samkvæmt henni eiga Ísraelar að skila aftur landi sem þeir tóku í stríði árið 1967, viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki og samþykkja að palestínskir flóttamenn geti snúið heim á ný.

Forseti Palestínu, Mahmoud Abbas, hefur hvatt Ísraela til þess að taka tilboðinu sem hann segir síðasta tækifærið til þess að friðmælast við þjóðir múslima.

Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, mun einnig sækja leiðtogafundinn. Ef hann gengur vel á jafnvel að bjóða talsmönnum Ísraels, Palestínu, Sádi-Arabíu, Egyptalandi, Jórdaníu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum að taka þátt í næsta fundi fjórveldanna um málefni Mið-Austurlanda.

Ísraelar eru þó á móti nær öllum lykilatriðum friðaráætlunarinnar. Þeir vilja ekki skila aftur landinu sem þeir tóku í stríðinu, sætta sig ekki við að austurhluti Jerúsalem verði gerður að höfuðborg Palestínu og eru tregir til að leyfa palestínskum flóttamönnum að snúa aftur til svæða þar sem nú búa gyðingar.

Hamas hefur einnig lýst yfir efasemdum sínum varðandi áætlunina en samtökin neita að viðurkenna tilverurétt Ísraels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×