Jakob Möller sagði við málflutning í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykajvíkur í dag að hann teldi uppbyggingu ákæra um bókhaldsbrot óþægilega og átaksilla. Skrítið væri að ákæra fyrir bókhaldsbrot, en ekki brot á ársreikningum um leið. Hann væri þó ekki að auglýsa eftir fleiri sakarefnum, en saksóknari hefði ekki gefið skýringar á þessu.
Ekki væri hægt að sakfella fyrir þessa ákæruliði nema sýnt væri fram á að reikningsskil væru röng. Ársreikningur er ekki rekinn nema sem ein heild, því hefði verið rökbundin nauðsyn að meta hann í heild.
Stjórnendur og endurskoðendur hefðu staðfest ársreikninga með undirskriftum sínum árin 2000 og 2001. Þannig gæfu reikningsskilin glögga mynd af rekstrarárinu og efnahag fyrirtækisins. Þeirri staðhæfingu yrði ekki mótmælt nema með heildstæðu mati á reikningshaldinu. Slíkt mat hefði ekki verið gert.
Jakob hefur lokið málflutningi sínum í dag. Á morgun halda verjendur áfram. Búist er við að þeir ljúki málflutningi klukkan þrjú. Þá taka við seinni ræður saksóknara og verjenda áður en málið verður lagt í dóm.