Erlent

Öldungadeildin samþykkir heimflutning frá Írak

Óli Tynes skrifar
Báðar deildir Bandaríkjaþings hafa samþykkt heimflutning hermanna frá Írak.
Báðar deildir Bandaríkjaþings hafa samþykkt heimflutning hermanna frá Írak.

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag frumvarp um að hefja heimflutning herliðsins í Írak eftir fjóra mánuði og að reynt skuli að ljúka honum á einu ári. Fullvíst þykir að forsetinn beiti neitunarvaldi gegn þessu frumvarpi, sem var hengt aftan í annað frumvarp um fjárframlög til stríðsrekstrar í Írak og Afganistan.

Fulltrúadeildin samþykkti frumvarp í sömu veru í síðustu viku, þótt dagsetningar væru ekki alveg þær sömu. Í öldungadeildinni var frumvarpið samþykkt með 52 atkvæðum gegn 47. Deildirnar tvær munu reyna að samræma frumvörp sín í eitt, sem verður sent forsetanum til samþykktar í næsta mánuði.

Ef forsetinn beitir neitunarvaldi, þarf 2/3 atkvæða í fulltrúadeildinni til þess að snúa ákvörðun hans. Vafasamt þykir að slíkur meirihluti sé fyrir hendi í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×