Erlent

Upplýsingum af 45 milljónum kredikorta stolið

MYND/AP

Tölvuþrjótar hafa stolið upplýsingum af rúmlega 45 milljónum kreditkorta sem notuð voru í TJ Maxx verslununum í Bandaríkjunum. Í yfirlýsingu fyrirtækisins til yfirvalda segir að ekki sé enn fullljóst hversu viðamikill þjófnaðurinn er. TJ Maxx rekur 2.500 verslanir í Bandaríkjunum. Möguleiki er einnig á því að viðskiptavinir verslunarkeðjunnar í Bretlandi og á Írlandi hafi orðið fyrir barðinu á þjófunum.

Í yfirlýsingunni kemur fram að þrír fjórðu kortanna séu þegar annað hvort útrunnin, eða upplýsingarnar hafi verið útmáðar. Á fréttavef BBC kemur fram að 100 skjöl hafi horfið úr tölvukerfi fyrirtækisins í Bretlandi árið 2003 og tveim skjölum hafi seinna verið stolið. Skjölin geyma upplýsingar um debit-og kreditkortafærslur frá desember 2002 til júlí 2005.

Talsmaður fyrirtækisins viðurkenndi að líklega yrði aldrei ljóst hvað hafi verið á þessum skjölum. Þjófurinn notaði aðferð sem gerir fyrirtækinu ómögulegt að komast að því. Auk þess eyði fyrirtækið reglulega skjölum.

Talsmaður hjá samtökum greiðslumiðlunarfyrirtækja segir um gífurlega tilslökun í öryggismálum að ræða. Þjófurinn hafi upplýsingar um hvernig afkóða eigi kortanúmerin.

Mark Rasch fyrrverandi saksóknari gegn tölvuglæpum í Bandaríkjunum segir líklegt að innanbúðarmaður sé tengdur málinu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×