Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn gerir stofnun hers að kosningamáli

MYND/Hari

Sjálfstæðisflokkurinn hefur valið að gera stofnun hers að kosningamáli, segir Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, um þær tillögur Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra um að stofnuð verði 240 manna lið varalögreglu sem kynntar voru í gær.

Össur segir á heimasíðu sinni að tillögurnar séu ekkert annað en vísir að íslenskum her og að hlutverki varaliðsins sé þannig lýst að það geti ekki þýtt annað en liðið verði æft í vopnaburði. Það blasi því við að eina stefnumálið sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt fram fyrir kosningarna, ennþá að minnsta kosti, sé að koma upp vísi að íslenskum her.

Össur spyr hvað Framsóknarflokkurinn segi við þessu og spyr hvort hann ætli að láta reka þetta mál niður um kokið á sér eins og Írakmálið. Þá bendir hann á að kostnaðurinn við varaliðið sé gríðarlegur, en stofnkostnaður er áætlaður um 240 milljónir króna og að rekstarkostnaður á ári verði um 220 milljónir.

Segir Össur á heimasíðu sinni að hugmyndin sé allsendis fráleit og að ríkisstjórnin hafi engin rök lagt fram sem styðji nauðsyn þess að skattborgararnir kosti með þessum hætti ástríðu dómsmálaráðherra fyrir tindátaleik fyrir fullorðna. Nær væri að nota þetta fé til að styrkja almennu löggæsluna í landinu, efla sérsveitina ef rök séu til og að bæta björgunar- og öryggiseftirlit á hafinu umhverfis Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×