Innlent

Byrgismálið til ríkissaksóknara

Rannsókn á meintum misbeitingarbrotum Guðmundar Jónssonar í Byrginu er á lokastigi og verður málið sent til Ríkissaksóknara á næstu dögum. Í það minnsta átta konur lögðu inn kæru á hendur Guðmundi en málið hefur verið til rannsóknar hjá Sýslumanninum á Selfossi.

Það var um miðjan desember í fyrra sem fréttaskýringaþátturinn Kompás greindi frá ásökunum fyrrverandi skjólstæðinga Guðmundar um kynferðislega misbeitingu. Konurnar, sem ekki vildu koma fram undir nafni í þættinum, lýstu því hvernig Guðmundur hefði að þeirra mati notfært sér bágt ástand kvenna sem komu til meðferðar í Byrginu.

Nokkrum dögum eftir að þátturinn var sýndur barst lögreglu fyrsta kæran á hendur Guðmundi. Þá þegar hóf lögreglan á Selfossi rannsókn á málinu. Milli jóla og nýárs gáfu fleiri konur sig fram við lögreglu og í upphafi árs voru kærendur orðnir sjö. Við rannsókn lögreglu ræddi hún meðal annars við fjölda vitna, skoðaði skjöl, myndbönd og tölvupósta og gróf upp garð Guðmundar þar sem talið var að hann hefði falið gögn í bakgarðinum heima hjá sér. Það var svo í marsmánuði sem áttunda kæran á hendur Guðmundi barst lögreglu.

Málið verður sent til ríkissaksóknara sem tekur ákvörðum um hvort gefin verður út ákæra á hendur Guðmundi eða ekki. Eins kemur ríkissaksóknari til með að þurfa að meta og skilgreina hvernig starfsemi hafi verið rekin í Byrginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×