Erlent

Allir sjóliðarnir sagðir hafa játað

Allir bresku sjóliðarnir sem Íranar hafa í haldi sínu hafa nú viðurkennt að hafa siglt inn í lögsögu ríkisins í óleyfi, að því er þarlendir fjölmiðlar herma. Íranska ríkissjónvarpið birti í gærkvöld og í morgun nýjar myndir af sjóliðunum þar sem þeir játa brot sín.

Tíu dagar eru frá því að sjóliðarnir fimmtán voru teknir fastir í Shatt al-Arab ósnum vegna meintra landhelgisbrota og enn heldur deilan áfram að flækjast. Í gærkvöld birti íranska ríkissjónvarpið myndir af tveimur þeirra þar sem þeir viðurkenndu að hafa verið í siglingu í íranskri lögsögu og bentu á kort því til staðfestingar. Í morgun greindu svo þarlendir fjölmiðlar frá því að allir sjóliðarnir fimmtán hefðu játað landhelgisbrotin. Myndbandsupptökur væru til af játningunum en af tillitssemi við bresku ríkisstjórnina yrðu þær ekki sýndar í sjónvarpi. Engu að síður birtust nýjar myndir af sjóliðunum nú skömmu fyrir fréttir, þó án hljóðs. Deila ríkjanna er á viðkvæmu stigi enda hafa skeytin gengið á milli ríkjanna á víxl. Ahmadinejad Íransforseti sakaði Breta um eigingirni og hroka um helgina á meðan Bush Bandaríkjaforseti sagði framkomu Írana í garð "gíslanna" - eins og hann kallaði sjóliðana - óafsakanlega. Ljós í myrkrinu eru þó ummæli Des Browne varnarmálaráðherra Bretlands í gær um að ríkin tvö ættu í beinum viðræðum um lausn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×