Erlent

Þreyttir á straumi innflytjenda -Sarkozy

Óli Tynes skrifar
Nicolas Sarkozy, forsetaframbjóðandi í Frakklandi.
Nicolas Sarkozy, forsetaframbjóðandi í Frakklandi. MYND/AP

Nicolas Sarkozy, frambjóðandi í frönsku forsetakosningunum, sagði í dag að Frakkar væru þreyttir á óheftum straumi innflytjenda til landsins. Hann sagði að augljós tengsl væru á milli fjölda innflytjenda og hinnar félagslegu uppreisnar sem orðið hefði í mörgum frönskum borgum. Átök í borgunum hafa aðallega verið milli lögreglu og innflytjenda frá Afríku- og Arabaríkjum.

Nicolas Sarkozy, sem sjálfur er ungverskur að uppruna, sagði af sér sem innanríkisráðherra, þegar hann sneri sér að kosningabaráttunni. Hann hefur lagt til að sett verði á stofn sérstakt ráðuneyti "innflytjenda og þjóðarvitundar." Sarkozy hefur gott forskot á aðra frambjóðendur í kosningaslagnum.

Ýmsum að óvörum hafa nokkur samtök múslima lýst yfir stuðningi við annan hægri mann, í kosningabaráttunni. Það er Jean-Marie le Pen, sem einnig vill hefta straum innflytjenda. Einn hinna múslimsku stuðningsmanna hans sagði í viðtali að þegar faðir hans fluttist til Frakklands hafi hann vitað að hann yrði að leggja hart að sér til þess að búa fjölskyldu sinni gott líf. Slíkt hið sama hefði hann sjálfur gert þegar hann óx úr grasi.

Hinir nýju innflytjendur litu hinsvegar á Frakkland sem eitthvað Eldorado, þar sem þeir fengju allt upp í hendurnar. Þeir nenntu ekkert að leggja á sig sjálfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×