Erlent

Óttast um fjölda fólks

Tröllvaxnar flóðbylgjur færðu heilu þorpin á kaf á Salómonseyjum, í vestanverðu Kyrrahafi, í gærkvöld eftir að öflugur neðansjávarskjálfti reið yfir svæðið. (IMK) Þrettán lík hafa fundist en óttast er að mun fleiri hafi farist þar sem upplýsingar af flóðasvæðunum eru af skornum skammti.

Skjálftinn sem var átta stig reið yfir um það leyti sem íbúar eyjanna voru að rísa úr rekkju. Upptök hans voru nánast beint undir eyjaklasanum, sem er í vestanverðu Kyrrahafinu, um 350 kílómetra norðvestur af höfuðborginni Honiara. Örskömmu síðar skall tröllvaxin flóðbylgja á ströndum eyjanna, að jafnaði um fjögurra til fimm metra há en sums staðar allt upp í tíu metrar. Vestanverður klasinn virðist hafa orðið verst úti, heilu þorpin í nágrenni bæjarins Gizo eru sögð hafa þurrkast út í hamförunum. Þegar hefur á annan tug líka fundist en óttast er að mannfallið sé mun meira. Bæði er fjölda fólks ennþá saknað og frá sumum af afskekktari eyjunum hafa engar fréttir borist. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á eyjunum enda eru margir án brýnustu nauðsynja. Unnið er að því að koma hjálpargögnum á vettvang. Flóðbylgjuviðvörun var gefin út í Ástralíu en nokkrum klukkustundum síðar var henni aflétt þegar ljóst var að áhrifa bylgjunnar hefði gætt á takmörkuðu svæði. Hálf milljón manna býr á Salómonseyjum en þær eru á risastóru misgengi, Eldhringnum svonefnda. Á sömu sprungu myndaðist flóðbylgjan mikla á annan dag jóla 2004 sem kostaði hátt í 300.000 mannslíf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×