Erlent

Pelosi til viðræðna við Sýrlendinga

Jónas Haraldsson skrifar
Pelosi á ferð um Damascus í morgun.
Pelosi á ferð um Damascus í morgun. MYND/AFP
Leiðtogi demókrata í fulltrúadeild bandaríska þingsins, Nancy Pelosi, kom í nótt til Sýrlands til viðræðna við þarlenda ráðamenn ræða um stöðuna í Írak og Líbanon. Ráðamenn í Hvíta húsinu hafa gagnrýnt Pelosi harkalega og segja hana grafa undan utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar.

Pelosi hefur skellt skollaeyrum við allri gagnrýni og segir að nauðsynlegt sé að ræða við Sýrlendinga. Bandaríkin hafa ekki átt í formlegum pólitískum samskiptum við Sýrland í tvö ár. Pelosi er hæst setti bandaríski stjórnmálamaðurinn sem heimsækir Sýrland síðan á árinu 2003. Hún fór víða í Damascus og heimsótti meðal annars markaði og talaði við heimamenn.

Aðstoðarutanríkisráðherra Sýrlands, Fayssal Mekdad, bjóst þó ekki við því að viðræður hans og Pelosi myndu skila miklum árangri þar sem þetta væri aðeins fyrsta heimsókn hennar. Bandaríkin og Evrópusambandið hafa gagnrýnt stefnu Sýrlendinga í Mið-Austurlöndum og þá sérstaklega stuðning þeirra við Hisbollah og Hamas. Sýrlendingar segja hins vegar að utanríkisstefna Bandaríkjanna sé það sem búi til þessa hópa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×