Erlent

Einn síðasti aðstoðarmaður Hitlers látinn

Óli Tynes skrifar
Barón Berd Freytag von Loringhoven.
Barón Berd Freytag von Loringhoven.

Barón Bernd Freytag von Loringhoven einn af aðstoðarmönnum Adolfs Hitlers  í byrgi hans í Berlín lést 27. febrúar síðastliðinn. Fjölskyldan kaus að skýra ekki frá andláti hans fyrr en nú. Loringhoven, sem var 93 ára gamall var einn af síðustu eftirlifandi aðstoðarmönnum Hitlers, frá lokum heimsstyrjaldarinnar. Hlutverk hans undir lokin var að taka saman skýrslur fyrir foringjann um framgang Rauða hersins, sem stöðugt nálgaðist Berlín.

Loringhoven sótti upplýsingar sínar um það að mestu hjá Reuters fréttastofunni og breska útvarpinu BBC. Til allrar hamingju fyrir hann komst Hitler aldrei að því. Fyrr í stríðinu var Loringhoven margheiðraður skriðdrekaforingi sem barðist við hlið Heinz Guderians. Sjálfur varð hann hershöfðingi og varaformaður þýska herráðsins.

Loringhoven skrifaði bók um síðustu daga þriðja ríkisins og lýsti þar ótrúlegu andrúmsloftinu í byrgi Hitlers. Hann var maður skarpgáfaður og var oft kallaður til sem sagnfræðilegur ráðunautur við gerð kvikmynda og sjónvarpsþátta um styrjöldina. Síðast kom hann við sögu við gerð kvikmyndarinnar Der Untergang.

Hann féll í hendur Breta í lok stríðsins og sat í fangabúðum í tvö ár, en var aldrei sakaður um neina stríðsglæpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×