Innlent

Hótaði afgreiðslukonu með hamri

MYND/Ingólfur

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundna, fyrri brot gegn valdstjórninni, rán og þjófnað.

Ákæran á hendur manninum var í þremur liðum. Hann var í fyrsta lagi ákærður fyrir að hóta lögreglumönnum með hafnaboltakylfu á lofti og í öðru lagi fyrir þjófnað með því að brjótast inn í skartgripaverslun og hafa þaðan á brott með sér skartgripi að verðmæti 370 þúsund krónur. Í þriðja lagi var hann ákærður fyrir rán í söluturni við Hafnarstræti en þar ógnaði hann afgreiðslukonu með hamri.

Við þingfestingu málsins játaði maðurinn sök í fyrstu tveimur ákæruliðunum en þar sem honum var gefin að sök háttsemi sem varðað getur 10 ára fangelsi í þriðja ákæruliðnum fór fram aðalmeðferð vegna þess liðar.

Maðurinn kvaðst ekki muna eftir atvikinu þegar hann rændi söluturninn þar sem hann hefði verið búinn að taka of mikið af kvíðastillandi lyfjum og drekka áfengi með því. Hann kvaðst þó ekki rengja það sem segði í lögregluskýrslum. Þótti hann því hafa framið verknaðinn.

Við ákvörðun refsingar var horft til þess að maðurinn hafði ekki áður komist í kast við lögin og að hann hefði játað á sig brotin. Jafnframt var horft til þess að hann hefði hótað bæði lögreglumönnunum og afgreiðslukonunni með hættulegum verkfærum. Þótti refsing hans því hæfileg níu mánaða fangelsi en af því eru sex mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára.

Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða Vátryggingafélagi Íslands nærri 500 þúsund krónur í bætur, meðal annars vegna skartgripanna sem hann stal en þeir komu aldrei í leitirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×