Erlent

Búist við tilkynningu um kjarnorkuáætlun

Fréttamannafundur Ahmadinejads hefst á hádegi að íslenskum tíma.
Fréttamannafundur Ahmadinejads hefst á hádegi að íslenskum tíma. MYND/AFP
Búist er við því að Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, skýri frá því í dag að Íranar ætli að hefja auðgun úrans í stórum stíl. Hingað til hafa þeir aðeins verið með örfáar skilvindur, eða um 350, í tilraunaskyni. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) hefur sagt að Íranar hafi sett upp 300 skilvindur í viðbót og hugsanlegt er að nú verði tilkynnt að hafin hafi verið uppsetning á 3.000 skilvindum.

Skilvindur eru það sem notað er til þess að auðga úran og gera það hæft til úrvinnslu. Úrangas er sett í skilvindur sem síðan snúast á ógnarhraða og þétta gasið. Við þetta ferli myndast auðgað úrangas sem er síðan þétt í fast efni. Það er síðan er hægt að nota annaðhvort til raforkuframleiðslu, sem Íranar segjast ætla að gera, eða til kjarnorkuvopnaframleiðslu, en því halda vesturlönd fram. Með 3.000 skilvindur tæki það Íran eitt ár að framleiða nóg af auðguðu úrani til þess að búa til kjarnorkusprengju.

Ef Ahmadinejad segir að vinna sé hafin við að setja upp 3.000 nýjar skilvindur er ljóst að það á eftir að koma illa við vesturlönd. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur þegar samþykkt refsiaðgerðir gegn Íran vegna kjarnorkuáætlunar þarlendra stjórnvalda. Viðræður standa nú yfir á milli Írana og IAEA um að veita eftirlitsmönnum aðgang að kjarnorkustöðinni í Natanz, en þar ætla Íranar sér að byggja 54.000 skilvindur.

Hægt er að sjá ýtarlegri skýringu um hvernig auðgun úrans fer fram og hvað skilvindur eru á Vísindavef Háskóla Íslands. http://visindavefur.hi.is/?id=5687



Fleiri fréttir

Sjá meira


×