Körfubolti

Washington í úrslitakeppnina þrátt fyrir fimmta tapið í röð

Antawn Jamison og félagar í Washington gátu leyft sér að brosa þrátt fyrir fimmta tapið í röð
Antawn Jamison og félagar í Washington gátu leyft sér að brosa þrátt fyrir fimmta tapið í röð NordicPhotos/GettyImages
Lið Washington Wizards tryggði sér í nótt sæti í úrslitakeppni NBA þrátt fyrir að liðið tapaði fimmta leiknum í röð, nú fyrir New Jersey. New Orleans heldur enn í vonina um að komast í úrslitakeppninna í Vesturdeildinni eftir sigur á LA Clippers. Miami lá fyrir Charlotte.

Atlanta lagði Boston 104-96. Gerald Green setti persónulegt met hjá Boston með 33 stigum en Tyronn Lue skoraði 26 stig og gaf 10 stoðsendingar hjá Atlanta.

New Jersey lagði Washington 96-92. Richard Jefferson skoraði 35 stig fyrir New Jersey en Antawn Jamison skoraði 26 stig og hirti 11 fráköst fyrir Washington, sem er komið í úrslitakeppnina eftir að Indiana tapaði leik sínum í nótt.

Indiana tapaði fyrir Philadelphia 90-86. Jermaine O´Neal skoraði 21 stig og hirti 10 fráköst fyrir Indiana en Andre Miller var með 19 stig og 10 stoðsendingar fyrir Philadelphia.

Charlotte lagði Miami 92-82. Antoine Walker skoraði 17 stig og hirti 9 fráköst fyrir meistarana en Gerald Wallace skoraði 24 stig fyrir Charlotte.

Sacramento lagði Memphis 112-100 á útivelli og tryggði þar með að Memphis mun enda með versta árangur allra liða í NBA í vetur. Mike Bibby skoraði 25 stig fyrir Sacramento og Mike Miller var með 17 stig, 10 fráköst og 11 stoðsendingar. Dahntay Jones skoraði 20 stig fyrir Memphis, sem hefur aðeins unnið 19 leiki í allan vetur.

New Orleans skellti Clippers 103-100 eftir framlengdan leik. Elton Brand skoraði 37 stig fyrir Clippers en David West 33 fyrir New Orleans. Liðin eru nánast hnífjöfn í baráttunni um síðustu sætin í úrslitakeppnina í Vesturdeildinni.

Loks vann Chicago auðveldan heimasigur á New York Knicks 98-69 og er nánast öruggt með heimavallarréttinn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Ben Gordon skoraði 23 stig fyrir Chicago en Nate Robinson 24 fyrir New York.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×