Innlent

Litháar úrskurðaðir í farbann vegna þjófnaða

MYND/GVA

Hæstiréttur staðfesti í dag farbann héraðsdóms yfir tveimur Litháum sem grunaðir eru um þjófnaði hér á landi í síðasta mánuði. Gildir farbannið þar til dómur fellur í máli þeirra en þó ekki lengur en til 2. maí.

Fram kemur í greinargerð lögreglu sem lögð var fyrir héraðsdóm að mennirnir hefðu verið handteknir í bifreið á Kjalarnesi grunaðir um að hafa stolið fartölvu úr verslun BT á Akranesi þannn 29. mars. Þremur dögum fyrr var tilkynnt um þjófnað á tveimur fartölvum í BT í Kringlunni þar sem mennirnir tveir liggja einnig undir grun.

Báðir hafa mennirnir verið sakfelldir áður fyrir þjófnað, annar í Noregi og hinn í Litháen. Þá segir lögregla í greinargerðinni að staðfesting hafi fengist á því að mennirnir hafi ekki aðsetur hér á landi. Lögregla telji í ljósi aðstæðna þeirra hér á landi og lítilla tengsla við landið nauðsynlegt að mennirnir sæti áfram gæsluvarðhaldi svo unnt sé að ljúka máli þeirra fyrir dómi. Ætla megi að mennirnir haldi áfram afbrotum eða reyni að fara úr landi til að komast hjá málsókn refsingar.

Á þetta féllst héraðsdómur og úrskurð hans staðfesti Hæstiréttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×