Innlent

Vinstri grænir fjórfalda fylgi sitt

Vinstri grænir hafa stóraukið fylgi sitt undanfarið.
Vinstri grænir hafa stóraukið fylgi sitt undanfarið. MYND/Vísir

Vinstri grænir fjórfalda fylgi sitt í Suðurkjördæmi samkvæmt nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskólans gerði fyrir Stöð 2. Vinstri grænir fá samkvæmt könnuninni tæp 18 prósent og tvo kjördæmakjörna þingmenn en hafa nú engan. Mennina tvo fengju Vinstri grænir á kostnað Framsóknar og Frjálslyndra sem missa báðir einn mann.

Framsókn fær samkvæmt þessu tæp 17 prósent og aðeins einn mann kjörinn og Frjálslyndir ná ekki inn manni með rúm 6 prósent.

Sjálfstæðisflokkurinn styrkir nokkuð stöðu sína í kjördæminu og fengi 3 þingmenn með sitt ríflega 30 prósenta fylgi.

Samfylkingin heldur líka sínum þingmannafjölda, fengi þrjá, en fylgi hennar er þó rúmum fjórum prósentum minna en í kosningunum fyrir fjórum árum. Mestu tapar þó framsókn eða um sjö prósentum.

Íslandshreyfingin mælist í rétt rúmum tveimur prósentum og Baráttusamtökin í einu og hálfu prósenti.

Þá var einnig kannað viðhorf Sunnlendinga til virkjana í neðri hluta Þjórsár og voru um 57 prósent andvíg virkjun en 43 prósent sögðust hlynnt.

Úrtakið í könnuninni var 800 manns og svarhlutfall 65%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×