Innlent

Notuðu 300 loftkúta við reykköfun í gær

Slökkviliðsmenn notuðu um 300 loftkúta við reykköfun í brunanum í miðbæ í gær, en það jafngildir loftnotkun í 10 og hálfan sólarhring. Þetta sagði Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, í samtali við Stöð 2 nú í hádeginu. Hreinsunarstarf stendur nú yfir á staðnum þar sem Austurstræti 22 brann til kaldra kola.

Slökkviliðsmenn börðust við eldinn frá klukkan 14 til 21 þegar það tókst að ráða niðurlögum hans. Jón Viðar er mjög ánægður með störf sinna manna og segir þá hafa gert það sem hægt var að gera í stöðunni. Hann bendir enn fremur á að á meðan á slökkvistarfi stóð hafi slökkviliðið notið aðstoðar frá Brunavörnum Suðurnesja sem fóru í um 40 sjúkraflutninga í gær.

Hann segir samstarf slökkviliðs við lögreglu, Gámaþjónustuna og framkvæmdasvið borgarinnar hafa gengið vel. Þá þakkar hann sömuleiðs fjölmiðlum fyrir samstarfið í gær því mikilvægt hafi verið að koma skilaboðum til almennings. Hreinsunarstarf stendur nú yfir en ekki liggur fyrir hvenær því lýkur.

Jón Viðar segir ekkert frekar vitað um eldsupptök en rannsókn á þeim sé flókin og geti tekið allt að þrjá daga. Talið er að eldurinn hafi komið upp í söluturni milli Austurstrætis 22 og Lækjargötu 2.

Formlegri eldvakt slökkviliðsins lauk í morgun klukkan 7 og segir Jón Viðar að slökkviliðsmenn á vaktinni í nótt hafi farið um svæðið en ekkert óvenjulegt hafi komið upp. Þá segir hann aðspurður að engin vandamál hafi verið með vatn á staðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×