Innlent

Ný hús tilbúin innan tveggja ára

MYND/Vilhelm

Borgarstjórinn í Reykjavík vonar að ný og endurbyggð hús verði risin á horni Lækjargötu og Austurstrætis innan tveggja ára. Hann hefur falið embættismönnum að hefja viðræður við eigendur húsanna um kaup borgarinnar á þeim og reiknar með niðurstöðu öðru hvoru megin við mánaðamótin.

Ekki liggur endanlega fyrir hvað verður gert á lóðunum sem húsin við Lækjarggötu tvö og Austurstræti 22 standa á. En það er þó ljóst þeir sem hafa stundað þar rekstur hefja hann ekki aftur þar í bráð.

"Ég hef falið mínu fólki að eiga viðræður við eigendur lóðanna um hugsanleg kaup borgarinnar á þessum lóðum. Það er gert aðallega í þeim tilgangi að auðvelda okkur og flýta fyrir uppbyggingunni og tryggja eins og kostur er að þarna verði byggt sem næst upprunalegri mynd", segir Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson borgarstjóri.

Þótt húsið við Lækjargötu tvö sé heillegt að sjá að utan, er það mikið skemmt. Allar líkur eru á að það verði rifið og nýtt hús byggt í staðinn.

Fasteignafélagið Eik á Lækjargötu tvö, en þeir sem nú stunda rekstur í húsinu eru í algerri óvissu með áframhaldandi rekstur, þegar nýtt eða endurbyggt hús verður tilbúið. Garðar Hannes Friðjónsson framkvæmdastjóri Eikar segir erfitt að uppfylla leigusamning þegar ómögulegt er að stunda rekstur í húsinu, en félagið sé þó opið fyrir að skoða alla möguleika í stöðunni.

Borgarstjóri hefur falið skipulagssviði í samvinnu við Árbæjarsafn, húsafriðunarnefnd ríkisins og minjavernd að kanna með hvaða hætti er best að standa að uppbyggingunni. Borgarstjóri er með ákveðnar hugmyndir um Lækjargötu tvö.

"Síðan hef ég líka falið skipulagssviði í góðri samvinnu við Árbæjarsafn og húsafriðunarnefnd ríkisins og minjavernd að kanna með hvaða hætti væri best að standa að þessari uppbyggingu," segir borgarstjóri.

Vilhjálmur segir að ekki komi til greina í hans huga að rífa Lækjargötu 2 og byggja þar hús í allt öðrum stíl. Hann sé ekki sammála Hrafni Gunnlaugssyni að setja 50 hæða glerhús á lóðina. Á þessu horni eigi að leggja áherslu á að halda í þá sögulegu götumynd sem þarna hafi verið í tæp 200 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×