Fótbolti

Hoddle tippar á Milan og Liverpool í úrslitum

NordicPhotos/GettyImages

Glenn Hoddle, fyrrum landsliðsþjálfari Englendinga í knattspyrnu, segist tippa á að það verði Liverpool og AC Milan sem mætast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Aþenu í vor og endurtaki þar með leikinn frá í Istanbul árið 2005.

Hoddle fór fögrum orðum um Jose Mourinho knattspyrnustjóra Chelsea í viðtali við Daily Express, en tippar samt á að það verði Liverpool sem fer í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. "Ég hef það á tilfinningunni að það verði Liverpool sem fer í úrslitaleikinn. Ég held að liðinu falli vel að spila við Chelsea og því virðist mögulegt að ná hagstæðum úrslitum á móti Chelsea. Ég held að stemmingin á Anfield í síðari leiknum muni fleyta þeim í gegn og stemmingin á pöllunum í þeim leik verður líkt og á áttunda áratugnum," sagði Hoddle. Hann hefur áhyggjur af meiðslum hjá Manchester United fyrir leikina gegn AC Milan.

"Ég óttast Milan-leikina fyrir hönd United vegna þeirra miklu meiðsla sem eru í herbúðum liðsins. Stundum fær maður léleg spil á hendi og ég held að meiðsli munu kosta United núna. Ég hefði tippað á sigur þeirra fyrir stuttu síðan. Það breytir því ekki að United þyrfti að taka á öllu sínu gegn Milan hvort sem þeir væru með fullan hóp eða ekki. Heimaleikurinn skiptir öllu fyrir United í þessu sambandi, þeir geta ekki farið áfram ef þeir þurfa að skora mörk í opnum leik í síðari viðureigninni," sagði Hoddle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×