Skoðun

Gaspur Gríms Atlasonar

Grímur Atlason bæjarstjóri Bolungarvíkur skrifar grein í Fréttablaðið þann 22. maí sl. sem er full af rangfærslum og öfugmælum um íslenska kvótakerfið og virðist sem bæjarstjórinn hafi ekki kynnt sér þróun mála í sjávarútvegi með neinum hætti.

Í fyrsta lagi fullyrðir bæjarstjórinn að kvótakerfið hafi leitt af sér aukna verðmætasköpun. Þessi fullyrðing er röng þar sem glæný skýrsla Hagstofu Íslands sýnir að verðmæti íslensks sjávarfangs hefur lækkað um á þriðja tug milljarða árlega á síðasta áratug, á verðlagi þessa árs. Á sama tíma hafa skuldir útgerðarinnar margfaldast.

Ekki er að sjá að skuldirnar hafi komið til vegna fjárfestinga í greininni þar sem ekki hefur orðið eðlileg endurnýjun í togaraflota landsmanna og hefur hann elst mjög.

Grímur Atlason fullyrðir enn fremur að frelsi í sjávarútvegi hafi aukist og að afskipti hins opinbera hafi minnkað! Þessar órökstuddu fullyrðingar Gríms Atlasonar eru með ólíkindum þar sem það er nákvæmlega ekkert frelsi í greininni og nánast allar veiðar eru rígnegldar niður í kvóta og algerlega girt fyrir að nýliðar geti hafið rekstur. Hið opinbera ver síðan gífurlegum fjárhæðum í að hafa eftirlit og ýmis afskipti af sjómönnum. Eftirlitskostnaðurinn er nokkur hundruð þúsund krónur á hvern íslenskan sjómann. Kvótakerfið hvetur til svindls og brottkasts. Þrátt fyrir gífurlegt og síaukið eftirlit er milljarða svindl í kerfinu að mati fiskistofustjóra en það upplýsti hann í nýlegum Kompásþætti, svindl sem er á allra vitorði sem þekkja til sjávarútvegsins.

Það er mikið áhyggjuefni að forsvarsmaður sjávarbyggðar skuli geysast fram á ritvöllinn með vafasamar fullyrðingar um einhverja nútímavæðingu atvinnugreinar sem er þjökuð af vondu kvótakerfi sem særir sjávarbyggðirnar, framþróun útvegsins og réttlætiskennd almennings.

Frjálslyndi flokkurinn hefur ítrekað lagt fram tillögur um hvernig eigi að komast út úr núverandi pattstöðu byggðanna og fela þær m.a. í sér að gefa eitthvert frelsi til sjósóknar á minni bátum. Fyrir ábyrga sveitarstjórnarmenn í sjávarbyggðunum er bara eitt að gera, þ.e. taka undir tillögur Frjálslynda flokksins, a.m.k. ef þeir vilja stuðla að áframhaldandi byggð í sjávarbyggðunum.

Höfundur er fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×