Erlent

Bær í Kansas rústir einar eftir hvirfilbyl

Nítján hús af tuttugu eyðilögðust í hvirfilbylnum í bænum Greensburg í Kansas.
Nítján hús af tuttugu eyðilögðust í hvirfilbylnum í bænum Greensburg í Kansas.

Björgunarsveitir leita nú eftirlifenda í bænum Greensburg í Kansas fylki í Bandaríkjunum eftir að hvirfilbylur lagði bæinn í eyði í dag. Níu manns létu lífið í veðurhamnum, þar af átta í Greensburg.

Talið er að bylurinn hafi eyðilag 95 prósent bæjarins, en í honum búa 1.400 manns. Bæjarstjórinn sagði á blaðamannafundi síðdegis að miðbærinn væri allur í rúst, hans eigið hús væri ónýtt og sömuleiðis hús allra starfsmanna bæjarins.

Margir bæjarbúar eyddu deginum við að grafa í rústum húsa sinna í leit að ljósmyndum og öðrum mikilvægum eigum. Um allan bæ mátti sjá rústir húsa og stórskemmda bíla.

Íbúar fengu um 20 mínútna viðvörun um að hvirfilbylurinn væri um það bil að ganga yfir bæinn. Greensburg er í alfaraleið hvirfilbyla og þar hefur verið komið upp viðvörunarkerfi, þannig að sírenur fara í gang þegar veðurkerfið nálgast bæinn.

Einn maður ók olíubíl inn í bæinn þegar sírenurnar fóru að væla. Hann leitaði sér skjólst í frystigeymslu. Þegar hann kom aftur út, þegar hvirfilbylurinn var farinn yfir, var olíubíllinn, með tuttugu tonn af olíu, fokinn út í buskann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×