Innlent

Versta lagið fer í úrslit Eurovision

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Eiríkur Hauksson stígur á svið í Helsinki í kvöld og flytur framlag Íslands Valentine Lost í undankeppni Eurovision. „Í fyrsta sinn er ég með lag sem mig langar virkilega að kynna fyrir Evrópu," segir hann. "Þegar ég fór í Gleðibankann var ég bara ráðinn í starfið." Íslenska lagið er best, en að mati Eiríks fer versta lagið, framlag Úkraínu, beint í úrslit .

Hann segist vera í fínu formi. Röddin sé góð og hann hlakki til að „telja í og gera þetta vel." Síðan velti framhaldið hvernig lagið fari í Austur-Evrópubúa.

Í viðtali við Lillý Valgerði Pétursdóttur fréttamann sagði Eiríkur að lag Úkraínu væri það hræðilegasta sem hann hefði heyrt í áratugi. Hann segir að maðurinn sé „algjört frík." Þeir muni ná inn svokölluðum mótmælaatkvæðum.

Eiríkur segir það skipta miklu máli fyrir Ísland að komast áfram. Landið sé lítið og fjarlægð þess frá meginlandinu geri það að verkum að margir Evrópubúar viti hreinlega ekki af tilvist þess. Fyrir kynningu á landinu í Evrópu skipti sköpum að komast í úrslit.

Eiríkur segist ekki vera haldinn neinni hjátrú, þó vilji hann helst ekki ver án hálsmensins síns og armbanda. Auk þess hafi hann þann ósið að fá sér smók áður en hann fer á svið. Það verður þó að vera hálftíma áður en lagið verður flutt, þar sem reykingar eru bannaðar í húsinu.

Bein útsending hefst frá undankeppninni klukkan 19 í Sjónvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×