Kanadíska upplýsingafyrirtækið Thomson Corp. hefur ákveðið að selja eignir fyrir 7,75 milljarða bandaríkadali, rúma 498 milljarða íslenskra króna. Með sölunni styrkjast sjóðir félagsins, sem sagt er íhuga að gera yfirtökutilboð í bresku fréttastofuna Reuters.
Það er bandaríski fjárfestingasjóðurinn Apax Partners og kanadíski lífeyrissjóðurinn Omers Capital Partners sem er kaupandi eignanna. Um er að ræða eitt af dótturfélögum Thomson, Nelson Canada, sem sérhæfir sig í gerð og framleiðslu á kennsluefni.
Gert er ráð fyrir að yfirtökutilboð Thomson á Reuters geti hljóðað upp á allt að 17,5 milljarða bandaríkjadali, jafnvirði 1.125 milljarða íslenskra króna. Hluthöfum Reuters verður greitt með peningum og hlutum í Thomson.
Gengi beggja félaga hækkaði í kauphöllum. Gengi bréfa í Thomson hækkaði um 3,6 prósent við fréttirnar og fór í 42,02 dali á hlut á markaði í Bandaríkjunum. Gengi bréfa í Reuters hækkaði að sama skapi um 1,91 prósent og fór í 613 pens á hlut í kauphöllinni í Lundúnum í Bretlandi.
Fulltrúar beggja fyrirtækja segja að viðræður séu á byrjunarstigi og sé ekki hægt að slá því föstu að Thomson leggi fram yfirtökutilboð. Verði það gert er því spáð að kaupin gangi í gegn á þriðja fjórðungi ársins.