Körfubolti

Nowitzki tók við verðlaunum sínum í dag

Dirk Nowitzki með styttuna góðu
Dirk Nowitzki með styttuna góðu NordicPhotos/GettyImages

Þjóðverjinn Dirk Nowitzki hjá Dallas var í dag formlega sæmdur verðlaunum fyrir að vera valinn verðmætasti leikmaður deildarkeppninnar í NBA, en fréttir þess efnis höfðu löngu lekið í fjölmiðla. Nowitzki er fyrsti Evrópubúinn sem hlýtur þennan heiður, en verður leikmanninum líklega lítil huggun eftir að lið hans var niðurlægt í úrslitakeppninni á dögunum.

Nowitzki tekur nú við styttunni af vini sínum og fyrrum liðsfélaga Steve Nash hjá Phoenix Suns, en hann var kjörinn verðmætasti leikmaður ársins í síðustu tvö skipti. Nowitzki fór fyrir liði Dallas sem vann 67 leiki í deildarkeppninni í vetur sem er sjötti besti árangur allra tíma. Liðið mætti Golden State í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og tapaði einvíginu 4-2. Þetta var í fyrsta skipti sem liðið í fyrsta sæti tapar fyrir liðinu í 8 sæti í úrslitakeppninni - eftir að þurfti fjóra leiki til að komast áfram í fyrstu umferð.

Þjóðverjinn fékk 83 atkvæði af 129 í fyrsta sætið og 1138 stig alls, Steve Nash fékk 44 atkvæði í fyrsta sæti og 1013 atkvæði alls og Kobe Bryant fékk 2 atkvæði í fyrsta sæti og 521 atkvæði alls.

"Það er enn erfitt fyrir mig að gleðjast yfir þessum verðlaunum vegna þess hve illa tímabilið endaði hjá okkur, en þetta eru verðlaun fyrir deildarkeppnina og ef ég horfi á þau þannig - get ég verið stoltur," sagði Nowitzki í dag.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×