Innlent

Eins og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gagnvart barni

Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í dag karlmann í eins og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gagnvart tíu ára stúlku á heimili sínu. Þá var hann dæmdur til að greiða henni eina milljón króna í miskabætur fyrir athæfið.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa káfað á kynfærum stúlkunnar utanklæða haustið 2006 og að hafa sleikt kynfæri stúlkunnar og látið getnaðarlim sinn í munn hennar í október í fyrra.

Það voru foreldrar stúlkunnar sem kærðu manninn til lögreglu eftir að hún hafði greint þeim frá atburðunum. Maðurinn viðurkenndi brotin og var tekið tillit þess við ákvörðun refsingar ásamt því að hann hefði leitað sér hjálpar eftir þau.

Í dómnum segir jafnframt að ákærði, sem var tengdur stúlkunni fjölskylduböndum, hafi brotið alvarlega gegn henni þar sem hún átti að vera örugg á heimili föður síns, en hann leigði hjá ákærða. Þá hefði ákærða átt að vera ljóst að stúlkan átti við ýmsa erfiðleika að stríða og fram hefði komið í málinu að þessi atvik hefðu haft mjög mikil og alvarleg áhrif á hana. Þótti eins og hálfs árs fangelsi því hæfileg refsing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×