Enski boltinn

Finnan fær nýjan samning hjá Liverpool

Steve Finnan sést hér í baráttu við Eið Smára Guðjohnsen fyrr í vetur.
Steve Finnan sést hér í baráttu við Eið Smára Guðjohnsen fyrr í vetur. MYND/Getty

Írski varnarmaðurinn Steve Finnan hjá Liverpool mun væntanlega skrifa undir nýjan samning við félagið fljótlega eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar í næstu viku. Finnan er einn af fimm leikmönnum sem þjálfarinn Rafael Benitez hefur boðið nýjan samning, en talið er að nokkrar breytingar verði á leikmannahóp Liverpool í sumar.

“Ég er mjög ánægður hjá Liverpool og vill vera hér eins lengi og mögulegt er,” sagði Finnan við fréttamenn í gær, en hann hefur spilað mjög vel á þessari leiktíð og er orðinn gríðarlega vinsæll á meðal stuðningsmanna liðsins.

Margir frambærilegir hægri bakverðir hafa verið orðaðir við Liverpool á síðustu árum en Finnan kveðst ekki hræðast samkeppnina.

“Það er fullt af leikmönnum sem verið er að orða við Liverpool og ekki aðeins í þeirri stöðu sem ég spila. Það kemur mér ekki á óvart ef leikmenn á borð við Daniel Alves (leikmaður Sevilla) verði orðaður við liðið í sumar á ný. Ég reyni að hugsa sem minnst um það og einbeiti mér að því að spila vel,” segir Finnan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×