Innlent

Staðfestir gæsluvarðhald vegna líkamsárásar

MYND/Stöð 2

Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir karlmanni á þrítugsaldri sem grunaður er um að hafa brotist inn á heimili á Skólavörðustíg í gengið í skrokk á húsráðanda og skilið hann eftir meðvitundarlausan.

Atvikið átti sér stað á uppstigningardag og fram kemur í gæsluvarðhaldsbeiðni lögreglu að nágranni hafi tekið eftir því að brotist hefði verið inn í íbúð ákærða og lá hann þar í blóði sínu. Samkvæmt bráðabirgðalæknisvottorði hlaut fórnarlambið nefbrot, kinnbeinsbrot ásamt lofti undir húð. Er talið að árásarmaðurinn, sem neitar sök, hafi notað hnúajárn eða eitthvað viðlíka barefli við árásina.

Mennirnir tveir munu vera málkunnugir og á árásarmaðurinn að hafa sakað fórnarlamb sitt um að hafa reynt við kærustu sína. Gæsluvarðhaldskrafan er sett fram þar sem rannsókn málsins er á frumstigi og þá þykir lögreglu rétt að tryggja að maðurinn fari ekki af landi brott á meðan rannsókn stendur yfir, en hann býr í Danmörku. Hann sætir því gæsluvarðhaldi til föstudags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×