Fyrsta getnaðarvarnarpillan sem hönnuð er til að stöðva blæðingar kvenna hefur verið samþykkt til almennrar notkunar í Bandaríkjunum. Matvæla- og lyfjaeftirlitið studdi samfellda notkun pillunnar Lybrel sem framleidd er af Wyeth. Sé pillan tekin daglega getur hún stöðvað mánaðartíðir auk þess að koma í veg fyrir getnað.
Á fréttavef BBC segir að embættismaður Matvæla og lyfjaeftirlitsins hafi varað við því að pillan hentaði ekki öllum. Um helmingur kvennanna sem lyfið var prófað á hættu inntökunni þar sem óreglulegar og óvæntar blæðingar hófust.
Talskona foreldrasamtaka í Bandaríkjunum fagnaði nýju pillunni og sagði hana henta vel konum sem fá höfuðverki, krampa og ógleði.
Félagsfræðingur við háskólann í New Hampshire sagði þó að fyrir flestar konur væri tíðarhringurinn hluti af eðlilegu lífi, ekki sjúkdómseinkenni.
Pillan inniheldur tvö hormón sem eru almennt notuð í getnaðarvarnarpillum, ethinyl estradiol og levonorgestrel.