Tíu ára gömul norsk telpa hefur skrifað Dýraverndarráði landsins og krafist þess að fólki verði bannað að klæða hunda sína í föt, skó, sólgleraugu og annað prjál. Lotta Nilsson segir að það sé dýrunum óeðlilegt að hafa þetta utan á sér og að þau líði fyrir það. Dýraverndarráðið er sammála Lottu.
Í bréfi sínu segir telpan að sér verði illt þegar hún sér fólk á ferli með uppklædd dýr sín. Þeim sé ætlaður feldurinn til þess að lifa í. Það angri þau sýnilega að vera troðið í föt. Torsten Jakobsson yfirmaður Dýraverndarráðsins er alveg sammála.
"Mér finnst dapurlegt að sjá svona farið með dýr," segir hann. Jakobsson gagnrýnir einnig að smáhundum sé troðið í handtöskur. "Þeir eiga að ferðast um á sínum eigin fjórum fótum."