Erlent

Þúsundir flýja flóttamannabúðir í Líbanon

Jónas Haraldsson skrifar
Þúsundir hafa flúið flóttamannabúðir í norðurhluta Líbanon eftir þriggja daga átök herskárra múslima og stjórnarhermanna.

Palestínskir flóttamenn í Nahr al-Bared búðunum sátu fastir á meðan bardögunum stóð. Í gær komst þó tímabundin ró á og nýttu margir sér tækifærið til þess að flýja, annað hvort inn í Trípólí eða aðrar flóttamannabúðir í nágrenninu.

Sameinuðu þjóðirnar sendu bíla með mat og vatn inn í búðirnar en einn þeirra þurfti að snúa við eftir að sprengja sprakk í nágrenni hans. Ástandið er slæmt í búðunum. Ekkert rafmagn, enginn matur og ekkert vatn. Aukinheldur er engin sjúkraaðstaða í Nahr al-Bared en margir í þeim þurfa á aðstoð að halda eftir bardaga undanfarinna daga.

Herskáir múslimar sem kalla sig Fatah al-Islam og stjórnarher Líbanon takast þarna á. Líbanon segir vígamennnina vera styrkta af Sýrlandi og hafa heitið því að uppræta starfsemi þeirra en þeir halda til í flóttamannabúðunum Nahr al-Bared. Átökin eru þau hörðustu sem hafa átt sér stað í Líbanon síðan borgarastyrjöld lauk þar í landi fyrir 17 árum síðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×