Innlent

Kostnaður LSH vegna starfsmannaleiga tvöfaldaðist

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Sú upphæð sem Landsspítali Háskólasjúkrahús greiddi starfsmannaleigum vegna hjúkrunarfræðinga tvöfaldaðist á milli áranna 2005 og 2006. Formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga telur starfsmannaleigurnar komnar til að vera, en forráðamenn Landsspítalans stefna í þveröfuga átt.

Kostnaður spítalanna vegna hvers hjúkrunarfræðings af starfsmannaleigu er um 35 prósent hærri en ef um væri að ræða fastan starfsmann.

Árið 2005 var heildarkostnaður í þessum lið 50 milljónir, en jókst í 100 milljónir árið 2006.

Elsa B. Friðfinnsdóttir formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fagnar samkeppni um hjúkrunarfræðinga.

Hún segist skilja að þeir kjósi betur launuð störf en telur þróunina óæskilega fyrir spítalann og þá þjónustu sem þar er veitt.

Elsa segir almenna ánægju innan stéttarinnar með stefnu ríkisstjórnarinnar að bæta kjör kvennastétta.

Þá telur hún það rýra gæði þjónustunnar að starfsfólki fækki sem er fastráðið. Reglubundinn og stöðugur mannafli sé alltaf bestur fyrir þjónustuna.

Anna Stefánsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá LSH kannast ekki við að hjúkrunarfræðingar streymi af spítalanum og inn á starfsmannaleigur. Þjónusta þeirra sé þó nýtt, en hún sé dýr fyrir stofnunina.

Stefna spítalans í viðskiptum við starfsmannaleigur verður til endurskoðunar í haust.

Anna segir að best væri að allir væru ráðnir hjá spítalanum, sérstaklega þegar kemur að fagmenntuðu fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×