Innlent

Netþjónabú góður valkostur

Björn Gíslason skrifar

Nokkur fyrirtæki í eigu hins opinbera og á almennum markaði hyggjast í dag kynna niðurstöður athugunar á samkeppnishæfni Íslands fyrir svokölluð netþjónabú sem þau hafa látið gera. Þetta eru Hitaveita Suðurnesja, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Farice, Síminn og Teymi auk Fjárfestingarstofu. Niðurstöðurnar verða kynntar á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu kl. 11.15 en fram kemur í tilkynningu að niðurstöðurnar séu mjög jákvæðar.

Þær hafi verið staðfestar af þeim erlendu stórfyrirtækjum í upplýsingatækniiðnaði sem hingað hafi komið undanfarið til að skoða og meta aðstæður til uppsetningar netþjónabúa fyrir eigin starfsemi. Bent er á að orkuþörf sé mikil í þessari starfsemi meðal annars vegna kælingar á búnaði.

Alþjóðleg fyrirtæki í þessum geira leiti stöðugt að umhverfisvænni og hagkvæmri orku og hana sé að finna á Íslandi. Minni kæliþörf sökum svalara loftslags hér á landi auki síðan enn á samkeppnishæfnina. Samgönguráðherra og iðnaðarráðherra kynna niðurstöðurnar ásamt fulltrúum fyrirtækjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×