Skoðun

Launin þín eru nú til sýnis

Frá og með deginum í dag og næstu tvær vikur munu upplýsingar um tekjur hvers og eins okkar liggja frammi til sýnis fyrir atbeina íslenska ríkisins. Ekkert okkar hefur veitt leyfi fyrir þessari birtingu en með henni gefst samstarfsmönnum okkar, nágrönnum, kunningjum, vinum og síðast en ekki síst óvildarmönnum færi á að hnýsast í einkamálefni okkar, viðkvæmar persónuupplýsingar, fjárhagsmálefni okkar.

Fjárhagsmálefni eru einkamál hvers og eins og meðal viðkvæmustu persónuupplýsinga í nútímasamfélagi. Gildar ástæður þurfa að liggja til grundvallar þeirri stefnu stjórnvalda að heimta þessar upplýsingar í krafti valdheimilda og leggja þær svo á glámbekk. Órökstuddar hugmyndir um virkt skatteftirlit með þessum hætti geta vart talist grundvöllur slíkrar valdbeitingar og átroðningi ríkisvaldsins á réttindum einstaklinga.

Formælendur þessa lögbundna yfirgangs – opinberrar birtingar á upplýsingum um launin okkar – nefna gjarnan að gagnsæi í þessum efnum sé mikilvægt, m.a. til að fylgjast með þróun í launamun kynjanna. En allar þær upplýsingar má vinna og birta án þess að tengja þær við nafngreinda menn og konur. Engin þörf er á því, sé þetta tilgangurinn, að ráðast svo freklega gegn friðhelgi einkalífsins.

Birting upplýsinga um tekjur einstaklinga er einnig til þess fallin að grafa undan því trúnaðarsambandi sem viðgengist hefur á vinnumarkaði um launakjör í frjálsum vinnusamningum. Með því að skylda skattstjóra til að leggja álagningarog skattskrár fram gerir ríkisvaldið þennan trúnað að engu.

Telja verður að núgildandi ákvæði laga um tekjuskatt sem skylda skattstjóra til að birta álagningar- og skattskrár séu í verulegu ósamræmi við lagaákvæði og þær meginreglur sem lögfestar hafa verið um þagnarskyldu um upplýsingar sem varða fjárhagsmálefni einstaklinga á síðustu árum. Þá verður að teljast afar hæpið umrædd lagagrein standist ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi einkalífs.

Ungir sjálfstæðismenn munu næstu tvær vikur láta gestabækur liggja frammi á skattstofum. Þeir sem fletta upp í álagningarskrám eru beðnir um að skrá nafn sitt og nöfn þeirra sem þeir eru að grennslast fyrir um í þessa gestabók. Þetta ætti að vera auðsótt, enda er fólk að sinna heiðvirðu skattaeftirliti – eða hvað? Við skulum sjá hversu margir gefa sig fram.

Höfundur er formaður SUS.




Skoðun

Sjá meira


×