Gerry McCann, faðir Madeleine litlu, hefur misst alla trú á rannsókn portúgölsku lögreglunnar á hvarfi dóttur sinnar. Tæpir fjórir mánuðir eru liðnir síðan stúlkan hvarf. Gerry segist vera þreyttur á því hversu hægt rannsókninni miðar og hversu litlar upplýsingar hann fái um gang mála. Þá segir hann að öll sú fjölmiðlaumfjöllun sem hafi verið í tengslum við hvarf Madeleine sé honum og móður stúlkunnar mjög erfið. Líklegt er talið að Gerry og eiginkona hans muni fara til Englands fljótlega. Þau hafa dvalið í Portúgal frá því að Madeleine hvarf.
Foreldrar Madeleine að gefast upp
