Væntingavísitala bandarískra neytenda um horfur í efnahagsmálum tók dýfu í mánuðinum en hún hefur ekki fallið jafn mikið á milli mánaða í tvö ár. Fréttveita Bloomberg segir þetta sýna að neytendur vestanhafs séu svartsýnni nú en áður vegna viðvarandi lækkunar á fasteignaverði auk þess sem erfiðara er nú en áður að fjármagna fasteignakaup. Þetta getur leitt til þess að dragi úr einkaneyslu, að mati Bloomberg.
Væntingarvísitalan fór úr 111,9 stigum í 105, að sögn Bloomberg sem bendir á að hún hafi ekki lækkaði jafn mikið á milli mánaða síðan fellibylurinn Katrín fór yfir Mexíkóflóa með hræðilegum afleiðingum.
Bloomberg hefur ennfremur eftir hagfræðingi hjá Wachovia-bankanum í Bandaríkjunum að neytendur hafi greinilega fylgst vel með stöðu mála og séu áhyggjufullir um horfur í efnahagsmálum. „Við gerum ekki ráð fyrir því að þeir verji jafn miklu í einkaneyslu og við töldum fyrir nokkrum mánuðum síðan," segir hann.
Upplýsingar um einkaneyslu er stór liður í hagvaxtartölum í Bandaríkjunum og eru horfur á að eitthvað muni draga úr þeim haldi neytendur að sér höndum, að sögn Bloomberg.