Innlent

Danskir stórmarkaðir hætta að kaupa botnvörpufisk

Óli Tynes skrifar

Danskir stórmarkaðir ætla að taka upp samstarf við alþjóðasamtökin World Wildlife Fund um að merkja fiska í kæliborðum sínum og frystiskápum, með tilliti til þess hvort þeir teljist í hættu vegna ofveiði. Einnig á að benda fólki á aðrar tegundir sem hægt sé að kaupa, til dæmis ufsa í staðinn fyrir þorsk. Þá segir talsmaður danskra stórmarkaða að þeir muni tilkynna viðskiptavinum sínum að þeir kaupi ekki lengur fisk sem er veiddur með botnvörpu.

Um það bil sextíu prósent af sjávarfangi á Íslandi er veitt með botnvörpu. Friðrik Arngrímsson hjá Landssambandi Íslenskra útvegsmanna segir að þetta séu vissulega slæm tíðindi, en komi ekki á óvart. Umhverfisverndarsinnar hafi lengi barist gegn botnvörpunni vegna þess að hún eyðileggi hafsbotninn.

Þeir segist frekar vilja línufisk en eru þegar farnir að berjast gen línuveiðum líka. Til dæmis hengdu þeir hundshræ á öngul til þess að sýna framá hversu ómannúðlegt það sé að veiða á línu. Friðrik segir að þeir séu mjög meðvitaðir um skemmdir sem botnvörpur geti unnið á hafsbotninum.

Á veiðisvæðum íslensku skipanna sé hafsbotninn hinsvegar víða þannig að vörpurnar valdi engum skemmdum. Þar sé sléttur leir- eða sandbotn.

 

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×