Hæstiréttur í Írak hefur staðfest dauðadóm yfir Ali Hassan al-Majid frænda Saddams Hussein. Yfirsaksóknari í Írak segir að hann verði hengdur innan þrjátíu daga. Ali Hassan er þekktur undir nafninu Efnavopna Ali. Hann er fyrrverandi varnarmálaráðherra og hershöfðingi í íraska hernum. Það voru Kúrdar sem gáfu honum nafnið Efnavopna Ali fyrir fjöldamorð á Kúrdum og sjía múslimum meðan Saddam var við völd.
Efnavopna Ali sýndi algert miskunnarleysi sitt þegar hann barði niður uppreisn Kúrda í norðurhéruðum landsins á áttunda áratugnum. Hann fyrirskipaði hömlulausa notkun á efnavopnum eins og sinnepsgasi og sarin gegn byggðum Kúrda.
Þær árásir hófust í apríl árið 1987 og var haldið áfram 1988. Þær náðu hámarki með árás á bæinn Halabja þar sem yfir 5000 menn konur og börn létu lífið. Ali gaf fyrirmæli um brottflutning Kúrda frá vissum svæðum. Í tilskipun til hersins var skipað svo fyrir að allt kvikt skyldi drepið á þeim svæðum, hvort sem það væru menn eða dýr.