Forstöðumenn ríkisflugfélagsins í Nepal fórnuðu tveim geitum síðastliðinn sunnudag til þess að friða skýjaguðinn Akash Bairab. Ástæðan fyrir fórninni var sú að önnur Boeing þota flugfélagsins hafði verið biluð í nokkrar vikur og því þurft að aflýsa mörgum áætlunarferðum.
Háttsettur embættismaður, Raju K.C. segir í samtali við Reuters fréttastofuna í dag að vélin sé aftur komin í loftið. Hann sagði ekkert um hvað hefði verið að henni. Né heldur upplýsti hann hvort flugvirkjar hefðu skoðað vélina, eða hvort geiturnar hafi verið látnar duga.