Innlent

Gömlu húsin haldast í Kvosinni

Húsin sem brunnu í miðborg Reykjavíkur verða endurbyggð í svo til upprunalegri mynd. Gömlum húsum á svæðinu verður fjölgað, samkvæmt verðlaunatillögunni, og Lækjargata fjögur verður flutt ofan af Árbæjarsafni.

Það var eftirvænting í lofti þegar úrslit í hugmyndasamkeppni borgarinnar um uppbyggingu í Kvosinni voru tilkynnt í dag. Sigurtillagan heitir - Ó borg, mín borg - og er frá þremur arkitektastofum, Argos, Gullinsnið og Studio Granda. Það jaðraði við að tár hefði sést á hvörmum borgarfulltrúa þegar þeir sáu tillöguna í dag, sagði formaður skipulagsráðs við afhendinguna.

Margrét Harðardóttir einn af verðlaunahöfunum og arkitekt hjá Studio Granda segir það auðvitað draumaverkefni arkitekta að fá að móta miðbæ en mikil vinna sé fyrir höndum. Menn þurfi að stíga varlega til jarðar í svona verki.

Margir muna sjálfsagt eftir Lækjargötu fjögur sem undir það síðasta hýsti Hagkaupsverslun en var síðan flutt upp í Árbæjarsafn - með nokkrum hamagangi - árið 1988. Og nú er það á leiðinni á nýjan stað - gegnt stjórnarráðinu. Auk þess er þarna í fæðingu ný verslunargata, torg, garðar og gönguleiðir.

Borgin og eigendur brunalóðanna hafa staðið í nokkru stappi en Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður Skipulagsráðs, segir þau mál í höndum lögfræðinga.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×