Erlent

Nægar sannanir gegn móður Madeleine -The Times

Óli Tynes skrifar
Gerry og Kate McCann.
Gerry og Kate McCann.
Breska blaðið The Times segir að portúgalska lögreglan telji sig hafa nægar sannanir til þess að ákæra móður Madeleine MCann fyrir manndráp af gáleysi. Jafnframt verði hún þá kærð fyrir að fela lík telpunnar. The Times segir að lögreglan hafi orðið fjúkandi reið þegar hætt var við að kæra Kate McCann, eftir að lögfræðingur hennar hafði átt fund með ríkissaksóknara Portúgals.

Portúgalska lögreglan telur að Kate McCann hafi af slysni gefið dóttur sinni of stóran skammt af róandi svefnlyfi. Hún hafi svo falið lík hennar og sviðsett leitina til að þurfa ekki að standa skil gerða sinna. Gerry og Kate McCann eru bæði læknar.

McCann hjónin eru nú komin heim til Bretlands með börn sín tvö. Lögum samkvæmt er hægt að kalla þau aftur til Portúgals með fimm daga fyrirvara. Við heimkomuna sögðu Gerry og Kate McCann að þau væri reiðubúin að snúa aftur til Portúgals verði þess óskað. Síðan hafa þau hinsvegar talað við sérfræðing á sviði framsals í sakamálum.

Búist er við að portúgalska lögreglan afhendi í dag ríkissaksóknaranum þau sönnunargögn sem hún hefur undir höndum. Hann mun svo taka ákvörðun um hvort ákæra verði gefin út. Hjónin hafa sagt að ásakanir lögreglunnar séu fáránlegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×