Körfubolti

Á alveg eins von á að vera bara á Íslandi

Helgi Már er kominn á kunnuglegar slóðir
Helgi Már er kominn á kunnuglegar slóðir Mynd/E.Ól

"Ég fékk dálítið af fyrirspurnum frá öðrum félögum en ég gaf það alltaf til kynna að KR væri fyrsti kostur hjá mér," sagði landsliðsmaðurinn Helgi Már Magnússon í samtali við Vísi.is í dag - skömmu eftir að hann handsalaði samning um að leika með Íslandsmeisturum KR í körfubolta í vetur.

Helga verður frjálst að fara frá félaginu ef hann fær gott tilboð um að fara utan í atvinnumennsku, en hann segist alveg eins eiga von á þvi að vera í vesturbænum til vors. "Ég er að byrja í námi í HÍ, þannig að ég stekk ekki á hvað sem er. Ég mun bara setjast niður með Benna þjálfara ef eitthvað slíkt kemur upp," sagði Helgi, sem lék síðast með svissneska liðinu Boncourt. Hann stóð sig auk þess mjög vel með landsliðinu í síðustu leikjum.

"Mér líst þrælvel á þetta KR-lið í dag og mér finnst við vera með sterkari hóp núna en í fyrra. Þetta er mjög þéttur hópur og ég held að menn geri tilkall til þess að vinna titilinn aftur. Það eru mjög spennandi tímar framundan hjá KR þar sem við erum á leiðinni í Evrópukeppni og svona, þannig að ég er mjög spenntur yfir þessu," sagði Helgi. Þjálfarinn hans er mjög kátur yfir liðsstyrknum.

"Við vitum ekkert hvað Helgi verður lengi hjá okkur en við fögnum því innilega að geta haft hann í okkar liði. Helgi er ekki bara frábær leikmaður heldur er þetta toppdrengur og mikill liðsmaður sem vælir aldrei. Ég er nú búinn að þjálfa þá marga í gegn um tíðina og Helgi er einn af mínum uppáhaldsleikmönnum," sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari KR þegar Vísir náði tali af honum síðdegis.

"Maður vonar auðvitað að Helgi komist að hjá góðu liði í atvinnumennsku, en persónulega myndi ég ekkert gráta mig í svefn ef hann yrði hjá okkur til vorsins," sagði þjálfarinn geðþekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×