Körfubolti

Sigursælastar í sögu háskólakörfu­boltans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paige Bueckers (númer 5) er stærsta stjarna UConn. Hún er á leið í WNBA.
Paige Bueckers (númer 5) er stærsta stjarna UConn. Hún er á leið í WNBA. getty/C. Morgan Engel

Connecticut sigraði Suður Karólínu, 82-59, í úrslitaleik bandaríska háskólakörfuboltans í kvennaflokki. Ekkert háskólakörfuboltalið hefur nú unnið fleiri meistaratitla en Sleðahundarnir.

UConn hefur unnið tólf háskólameistaratitla sem er met. Fyrir úrslitaleikinn í gær deildi UConn metinu með UCLA í karlaflokki.

Suður Karólína varð meistari 2022 og 2024 og átti því titil að verja. En stelpurnar hennar Dawn Staley áttu ekki mikla möguleika í UConn í úrslitaleiknum sem fór fram í Flórída.

Sleðahundarnir unnu 23 stiga sigur og tryggðu sér sinn fyrsta titil síðan 2016. UConn vann titilinn fjögur ár í röð (2013-16) en þurfti síðan að bíða í níu ár eftir að verða meistari næst.

Paige Bueckers lauk háskólaferli sínum með titli en búist er við því að hún verði valin með fyrsta valrétti í nýliðavali WNBA-deildarinnar í næstu viku.

Bueckers skoraði sautján stig í úrslitaleiknum en Sarah Strong og Azzi Fudd voru stigahæstar hjá UConn með 24 stig hvor. Fudd var valin besti leikmaður úrslitahelgarinnar.

Joyce Edwards og Tessa Johnson skoruðu tíu stig hvor fyrir Suður Karólínu sem var aðeins með 34 prósent skotnýtingu í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×