OJ Simpson var handtekinn í gærkvöldi fyrir vopnað rán á hótelherbergi í Las Vegas í Bandaríkjunum. Simpson segist einfaldlega hafa ætlað að ná í ýmsa muni úr eigin safni, sem hann segir að óprúttnir minjagripasalar hafi komist yfir með ólöglegum hætti.
Lögregla segir hins vegar að Simpson hafi reynt að hrifsa gripina með vopnavaldi. Hann var leiddur í handjárnum inn í fangelsi í Las Vegas.
Simpson var fyrir þrettán árum sýknaður af ákæru um að hafa myrt fyrrverandi eiginkonu sína og vin hennar. Verði hann ákærður fyrir vopnað rán í Las Vegas á hann yfir höfði sér áratugalanga fangelsisvist.