Körfubolti

ÍR og Hamar áfram

Í kvöld varð ljóst hvaða lið mætast í 8-liða úrslitum í Powerade bikarnum í körfubolta. ÍR-ingar lögðu Fjölni 81-78 í Seljaskóla og Hamar lagði Tindastól í Hveragerði 94-78.

Ómar Sævarsson og Sveinbjörn Claessen skoruðu 15 stig hvor í liði ÍR í kvöld og Sonny Troutman skoraði 11 stig, hirti 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Hjá Fjölni var Nemanja Sovic í algjörum sérflokki í sókninni með 27 stig og 12 fráköst og Drago Pavlovic skoraði 22 stig og hirti 7 fráköst. 

Marvin Valdimarsson átti frábæran leik í liði Hamars í sigrinum á Tindastól, en hann skoraði 27 stig og hitti úr 6 af 8 þriggja stiga skotum sínum. Friðrik Hreinsson skoraði 18 stig og George Byrd skoraði 16 stig og hirti 13 fráköst.

Donald Brown var stigahæstur hjá Tindastól með 16 stig og Ísak Einarsson skoraði 15 stig.

ÍR-ingar mæta Njarðvíkingum í næstu umferð keppninnar og fer leikurinn fram í Njarðvík á sunnudagskvöld klukkan 19:15. Hamar mætir hinsvegar KR í DHL-höllinni sama dag klukkan 20.

Á morgun hefjast 8-liða úrslitin með leikjum Grindavíkur og Skallagríms í Grindavík og Snæfell tekur á móti Þór Akureyri í Stykkishólmi. Þessir leikir hefjast báðir klukkan 16:00.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×